Internetið var leiðinlegt án mín

Guðetc bloggar.

þriðjudagur, apríl 13, 2004

Páskafrí!

... ekki lengur!
Veeii hvað ég er búinn að vera duglegur að læra í páskafríinu ... eða hittó, jó. Lenti í "tek þetta á morgun" pakkanum. En núna er ekkert nema skóli á morgun svo ég tek fátt annað en blásýruhylkið í hælnum. Ugh...
Ég held samt (og vona) að það eigi við um flesta, maður er aldrei eins duglegur og maður ætlaði sér. Þetta með að setja sér fáránlega lág markmið til að ná þeim pottþétt ... gefur ekki gott af sér. Maður endar bara á því að ná ekki þessum fáránlega lágu markmiðum og fær samviskubit hvort sem er, bæði vegna þess að maður náði ekki markmiðunum og vegna þess að maður ER EKKI BÚINN AÐ LÆRA NEITT!
Allavega, sem betur fer er ennþá soldill tími i prófin og ég get þá bara tekið þetta á morgun. Ugh...
Á minna ömurlegum nótum, þá fékk ég páskaegg númer 4 frá Mónu. Þau egg eru einmitt best og ekkert múður, þið sem segið eitthvað annað eruð lítið annað en heiðingjar fyrir mér, þetta er bara ákveðinn sannleikur sem þið eigið eftir að komast að. Jafnvel spurning um að fara í trúboðunar leiðangur og þvinga mínum skoðunum upp á aðra, það hefur gengið svo helvíti vel fyrr í sögunni. Svo tek ég það skrefi lengra og byrja á einskonar ransóknarrétti yfir þeim sem ég tel hindra framgang súkkulaði sannleikans. Spurning hvernig ég ætti að pynta fólk. Þar sem ég væri nú að leiða það í réttan sannleik um hvaða súkkulaði er best, ætli maður myndi ekki þvinga það til að borða vont súkkulaði daginn út og daginn inn, þar til maginn á því springi. Hehe, súkkulaði einræði framundan. Eins gott að koma sér í mjúkinn hjá Mónu.
Þó svo ég hafi verið latur við að læra í fríinu, þá las ég samt heilmikið. Kláraði LoveStar, sem er einmitt mögnuð bók (þó að Gunni hafi verið búinn að segja mér frá mestöllum endinum...) og las líka fyrstu tvær Preacher bækurnar sem ég er með í láni frá Önnu. Jamm, það tókst ss. á endanum, eftir að hafa gengið um með bókina sem ég ætlaði að lána henni í töskunni í viku, þá loksins hittumst við út í féló, bæði með tösku, og gátum skipts á bókum. Þær voru mjög góðar, þetta er skemmtileg hugmynd útfærð í mjög hryllilegum búning með meira af blótsyrðum en fangelsissturta þegar skrúfað er fyrir heitavatnið. Stórskemmtileg lesning þar. Þetta er kanski ekki mikið af bókum en mér finnst þetta afrek, miðað við að bækur virka sem argasta svefnlyf á mig.
"Finally a little quiet time to read some of my old favorites: "Honey roasted peanuts; Ingredients: ...""
Næst: læra!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home